top of page
Search
Sólveig R Gunnarsdóttir

HVERJIR EIGA AÐ FJÁRFESTA Í SJÓÐUM?

Updated: Nov 24, 2021

Sólveig R. Gunnarsdóttir, sjálfstæður ráðgjafi, 8. febrúar 2021.


Hvernig urðu fjárfestingasjóðir til?

Fyrstu fjárfestingasjóðirnir voru stofnaðir í kringum 1822 í Hollandi, en í því formi sem við þekkjum þá í dag, nær 1920-1930.


Almenningur tók þátt í því að byggja og styðja við efnahagslífið með sparnaði sínum og þar með njóta ávöxtunar þess. Sjóðirnir voru stofnaðir til þess að almenningur hefði tækifæri til að kaupa bréf í krafti stærðarinnar sem er eitthvað sem einstaklingar áttu annars erfitt með að fjármagna í heild en gátu með þessu móti fjármagnað að hluta. Síðar meir voru ráðnir sjóðsstjórar sem eru virkir á markaði og fylgjast daglega vel með fréttum, hreyfingum og sviptingum tengdum fjárfestingunum. Í dag er einnig gerð krafa um menntun sjóðsstjóra og hæfni þeirra til að stýra sjóðum.


Hvað hefur breyst í dag? Að mínu mati hefur myndast gjá á milli sjóðsstýringarfyrirtækja á Íslandi og almennings. Lífeyrissjóðirnir eru stærstu viðskiptavinir sjóðsstýringar fyrirtækja, aðrir fjárfestar eru fjársterkir einstaklingar og fyrirtæki. Það eru þeir aðilar sem í raun þurfa ekki á stærðarhagkvæmninni að halda heldur eru að nýta sjóðina til þess að dreifa áhættu, nýta ávöxtun og þekkingu sjóðsstjóra til þess að hámarka ávöxtun sína. Sparnaður er yfirleitt langtímafjárfesting en ef að safna á t.d. fyrir húsi eða námi, henta lausafjársjóðir eða bankareikningar betur, enda er sparnaðar tímabilið styttra.


Traust almennings á bönkunum og sjóðsstýringafyrirtækjum fór í vaskinn eftir efnahagshrunið 2008. Smæð markaðarins hafði vissulega heilmikið með það að gera, á Íslandi þurrkaðist markaðurinn nánast út á meðan við erum t.d. að sjá S&P500 fyrirtækjavísitalan í Bandaríkjunum hefur hækkað um 405% frá hruni (fór lægt í 3.jan 2009) og náð fyrri hæðum. Einstaklingar geta líka fjárfesta í stökum hlutabréfum, með meiri áhættu á þessi stöku bréf.


Hlutabréfasjóðir eru í eðli sínu áhættusamari en á sama tíma eru hærri væntingar um meiri ávöxtun. Eðlilegt væri að einstaklingar fengju ráðgjöf, um hverskonar sjóðir myndu henta þeim eða hvernig best væri að dreifa sparnaðinum, annaðhvort á rafrænu formi eða beint með ráðgjafa. Eflaust væri ekki rétt að ráðleggja fólki að leggja allan sinn sparnað í hlutabréf eða hlutabréfasjóði enda snýst ráðgjöfin um að gera fjárfestinguna skiljanlega til að einstaklingar geti tekið upplýsta ákvörðun. Eftir ráðgjöf getur einstaklingurinn tekið betri ákvörðun um hvar hann telur bestu ávöxtunina fyrir sig vera. Inn í þá ákvörðun spilar áhættusækni, aldur og eðli sparnaðar. Fjárfestar verða umfram allt að skilja dýfur og efnahagsaðstæður sem geta ollið sveiflum og geta horft til lengri tíma.


Eðlilega eru ríkisskuldabréf og innlán öruggasta ávöxtunarleiðin og margir kjósa hana. Aðrir vilja kannski njóta möguleika á meiri ávöxtun og þar af leiðandi meiri áhættu og kjósa með því að taka þátt í hlutabréfamarkaðinum líka. Fjárfestingar þurfa ekki að vera í ökkla eða eyra, það er auðvelt að kjósa að kaupa í fleiri en einum sjóð (ríkisskuldabréfasjóðum, fyrirtækjaskuldabréfasjóðum, lausafjársjóðum, hlutabréfasjóðum, blöndum sjóðum, erlendum sjóðum, vísitölusjóðum o.fl.) og jafnvel blanda kaupum í sjóðum með kaupum beint í félögum.


Erlendis hafa vísitölusjóðir verið að auka við vinsældir sínar, hvort sem er á hlutabréfamarkaði eða skuldabréfamarkaði. Vísitölusjóðir reyna að fylgja ákveðinni vísitölu og markmið þeirra er að ná sömu ávöxtun með tilliti til kostnaðar, yfirleitt aðeins undir vísitölunni með tilliti til kostnaðar. Vegna þess að sjóðurinn er ekki virkur á markaði heldur fylgir vísitölunni, sumum finnst í þessum tilfellum þekking þeirra vanmetin sem sjóðsstjórar. Raunin er hins vegar sú að vísitölusjóðir hafa verið að ná betri árangri til lengri tíma litið heldur en sjóðsstjórar. Í dag eru ekki margir vísitölusjóðir á Íslandi, enda erfitt þegar markaðurinn er svona lítill.


Cash is NOT king!

„Eyddu í sparnað og borgaðu svo reikningana“ segir Warren Buffet, en ekki eyða/fjárfesta nema þú eigir pening sem þú þolir líka að tapa. Það er mikið til í þessu og gott að muna að eyða í sparnað/fjárfestingar. Warren Buffet segir líka að „Cash is NOT king“ ástæðan fyrir því er að hann segir að nauðsynlegt sé að fjárfesta frekar í eignum því eignirnar hækka yfirleitt yfir tímann á meðan verðgildi peninga minnkar, ekki er hægt að kaupa það sama fyrir 100 krónur í dag og fyrir 100 krónur fyrir 10 árum síðan.


Einstaklingar hafa verið virkari í að leggja peningana sína í sparnað en áður, fókus hefur verið á að greiða niður lán og sparnaður aukist. En hins vegar er hlutfall einstaklinga í fjárfestingum, eignastýringum og sjóðum enn í sögulegu lágmarki. Traust almennings var brotið 2008. Sjóðsstýringafyrirtækjum hafa síðan verið settar miklar skorður af FME, hvað varðar auglýsingar og einnig voru sjóðsstýringarfyrirtækin öll færð út úr bönkunum, þau eru því lítið aðgengileg almenningi. Traust almennings á andlitslausum sjóði með litlu aðgengi er því skiljanlega lítið.


Eftir efnahagshrunið eru líka færri hlutabréf á markaði, aðeins eru skráð 19 fyrirtæki í Kauphöllina á meðan það voru 75 fyrir hrun. Ég vil sjá fleiri fyrirtæki á markaði, sem myndi þá í leiðinni skapa aukin tækifæri í fjárfestingum, fleiri virka fjárfesta og í heild opnari og aðgengilegri markað fyrir almenning til að taka þátt í atvinnulífinu.


Nú hafa vextir lækkað mikið, efnahagsþrengingar hvort sem eru háðar eða óháðar COVID hafa haft mikil áhrif og bankarnir virðast vera að draga saman seglin í fjármögnun til fyrirtækja. Lífeyrissjóðirnir hafa verið að færa sig meira erlendis og þar með hefur virkni á markaði minnkað. Annarskonar fjármögnun og tækifæri gætu því myndast á markaðinum, væru fleiri fyrirtæki skráð. Hlutabréf eru bara ein leið af mörgum fyrir fyrirtæki til þess að fjármagna sig.


Einstaklingar geta fjárfest beint í hlutabréfum eða í gegnum sjóði. Nú hafa skattaleysismörk af fjármagnstekjuskatti einstaklinga líka hækkað og skapa því enn frekar rými og ástæður til að hefja fjárfestingar.


Hvað þarf að breytast til þess að einstaklingar þori og taki ákvörðun um að fara aftur inn í virkari sparnað? Raunveruleikinn er sá að sjóðsstýringafyrirtækin bera líka hag af því að fá fleiri einstaklinga inn í sjóðina með því að dreifa sinni áhættu því einstaklingar eru yfirleitt ekki eins kvikir. Það er ágóði í því að fá virkari, kvikari og fleiri inn á markaðinn.


Ég vil sjá fleiri þátttakendur í íslensku atvinnulífi. Eyðum í sparnað og hvetjum fleiri fyrirtæki til þess að skrá sig á markað. Hættum að „snobba“ fyrir fjárfestum og „snobbum“ fyrir sparnaði, virkari atvinnulífi, fjölbreyttari fjármögnun og fjármögnunarkostum fyrirtækja.


Sólveig R. Gunnarsdóttir, MBA Sjálfstæður ráðgjafi, Sólveig ehf.

6,078 views0 comments

Comments


bottom of page